Ég er...

...gallagripur FootinMouth Ég þurfti eina ferðina enn að láta rífa úr mér jaxl. Það er eitthvað við þessar tennur mínar... þær vilja hreinlega ekki úr mér!  Allavega var tannlæknirinn í sléttan klukkutíma að hamast við að ná tönninni úr... um tíma hélt ég að hann væri að rífa mig úr kjálkalið! Hann stóð yfir mér og spyrnti í stólinn og nötraði af átaki... ég þurfti um tíma að halda við kjálkann svo hann færi ekki úr lið. Þetta gekk nú á endanum eftir að hann hafði fræst rótina alveg niður í botn nánast og eftir þetta er heill gígur í munninum á mér. Ég er líka helling bólgin og þurfti að fá pensillín til vonar og vara. Ég lét þetta nú samt ekki stoppa mig í að fara á "súpu og brauð" niður í kirkju. Mér þykir svo vænt um að systur mínar eru farnar að koma með börnin sín á þessa fjölskyldusamveru. Krakkarnir fara svo í Royal Rangers, sem er kristilegt skátastarf, á meðan við fullorðna fólkið hlustum á biblíulestur. Lesturinn var fróðlegur í gær en samt frekar þungur. Emil, Almar og Ásta eru sko alveg að fíla þetta. Eydís sat hjá okkur á lestrinum og var svo stillt og góð að undrun sætti! Enda algjör krúttbunki. Smile Guðbjörg vinkona mín er líka að koma með strákinn sinn og hann er alsæll í skátunum :)

Við höfum ekki alveg setið auðum höndum síðustu daga og vikur. Í kvöld er t.d. fyrsta kvöldið í vikunni sem ég er heima! Á mánudaginn var safnaðarfundur í kirkjunni og var hann ansi fróðlegur. Eitthvað er á teikniborðinu að byggja nýja kirkju og selja Fíladelfíu! Fyrst var ég alveg hissa á að fólk skyldi hugsa um þetta hvað þá meira en svo er ég bara orðin nokkuð sammála öllu sem kom fram. Þessi kirkja er eiginlega löngu sprungin hvað varðar pláss fyrir allt sem er gert þar. Sem dæmi má nefna voru 170 manns á Alfa í síðustu viku og hafa aldrei verið fleiri! Við erum Alfaliðar á Alfa 1 og það er bara nokkuð spennandi, ég mæli sko með því við alla að fara á svona námskeið. Mjög gaman að vera svona partur af þessu. Á þriðjudaginn vorum við sem sagt á Alfa :) Í gærkvöldi fórum við svo eins og áður sagði á súpu og brauð og svo beint þaðan í heimahóp. Ég er sko búin að hlakka til í allan dag að þurfa ekki að fara neitt í kvöld :)

Mosfellsbær vann málið sem ég þurfti að vera vitni í um daginn... (sjá frétt) mér létti helling... var búin að sjá fyrir mér fyrirsögnina: "Vitnisburður launafulltrúa varð til þess að Mosfellsbær tapaði máli..." hehe svona er maður taugaveiklaður. En... allt er gott sem endar vel.

Jæja, nú þarf ég að halda áfram að vinna...  er að uppfæra heimasíðu Hlaðhamra... :)

Farið varlega elskurnar mínar...

Hrafnhildur


Nóg að gera...

Þetta er búinn að vera ansi strembinn dagur. Ég var kölluð sem vitni í Héraðsdóm Reykjavíkur í máli launþega gegn Mosfellsbæ, ég fór sem launafulltrúi. Ég hafði alla helgina til að kvíða fyrir og það gekk ágætlega hehe... Bað samt helling fyrir þessu og leið orðið ágætlega í morgun. Þegar svo kom að þessu þá fór maginn af stað og pumpan líka. Ég gat nú alveg svarað fyrir það sem ég var spurð sem var vottorð/staðfesting sem ég hafði skrifað undir sem launafulltrúi, en þegar ég kom út þá varð einhvers konar spennufall held ég því það helltist yfir mig migreni af fullu afli og ég varð að taka Parkodin forte og leggja mig þegar ég kom heim! Ótrúlegt alveg. Það sagði mér eiginlega að ég var meira stressuð en ég hélt. En þetta tók skjótt af og gott að þetta er búið. Vona bara að ég þurfi aldrei að gera svona aftur.

Helgin var nokkuð róleg hjá okkur... við eyddum laugardeginum í að vera heima og snurfusa aðeins á efri hæðinni, tókum herbergið hans Hauks í gegn... hann var ennþá með kassa á gólfinu og svona... smáleti í drengnum að vera ekki búinn að þessu. Á sunnudaginn skruppum við svo í smábíltúr að hitta Bigga, kunningja Ágústar sem er á kafi í fjarstýrðum flugvélum. Ágúst á þrjár slíkar en hefur aldrei flogið þeim. Hann fékk eina frá afa sínum þegar hann dó og pabbi hans lét hann hafa sína líka, svo á hann eina sem hann er að setja saman sjálfur og er búinn að vera nokkur ár að því hehe. En það er ekkert verra.  Hann fékk smá að fljúga hjá Bigga og það er ótrúlegt hvað þetta er erfitt... hann ætlar að æfa sig betur í "herminum" sem er svona fjarstýring sem er tengd við tölvu og virkar eins og alvöru græja :) Við fórum svo á samkomu og tókum hana Guðbjörgu vinkonu mína með. Ég hlakka til að hafa hana með mér oftar.

Síðasta helgi (fyrir viku) var soldi skrautleg.  Við stofnuðum matarklúbb með vinum okkar og ætlum að hittast á tveggja mánaða fresti og elda eitthvað svakalega gott og njóta samvista. Þetta eru Lilja Björk og Óskar, Rikki og Lilja og Júlíana og Gummi. Lilja Björk og Óskar byrjuðu og voru með geggjaðan mat. Í forrétt var grillaður hlýri á teini í teryaki sósu og couscous með...mmm og í aðalrétt voru kjúklingabringur í hnetusmjöri ofl. HRIKALEGA gott. Þetta var mjög skemmtilegt í alla staði.

En... á meðan við vorum að þessu þá voru Haukur og Margrét í partýi sem átti að skv. foreldrum að vera 8 manna partý hjá frænda sem var einn heima.  Það fór hins vegar algjörlega úr böndunum og endaði með að yfir 50 unglingar voru komnir á staðinn og þar með óróaseggir og landasalar og húsið var í hættu. Viðar var með mínum krökkum og skaust frá milli hálf-ellefur og hálf-tólf og þegar hann kom til baka var allt komið í bál og brand svo það var hringt á lögregluna sem þurfti að rýma húsið. Viðar kom svo heim með mín börn og frændann...  Ótrúlegt alveg... en frændinn hafði nú svo sem alveg komið sér í þessa klípu sjálfur greyið... bauð fleirum en hann mátti og bauð þar með hættunni heim. En því miður var hellingur í húsinu sem fór illa eins og parketið, skápar ofl.  En það sem hafðist upp úr krafsinu var lífsreynsla sem situr í mínu fólki. Gott mál.

Það er heilmikið um að vera þessa dagana... kirkjustarfið allt að fara í gang, Ágúst er í kallahópum á mánudögum, við erum svo "Alfaliðar" á þriðjudögum, fjölskyldusamveran (súpa og brauð) á miðvikudögum og svo er heimahópur annan hvern fimmtudag....  úfff... nóg að gera... en bara gaman samt.

En nú ætla ég ekki að hafa þetta lengra í bili...

Gangið hægt inn um gleðinnar dyr...

...Hrafnhildur


Frábær helgi!

Við vorum að koma heim úr líklegast síðasta ferðalaginu þetta sumarið. Við fórum í Stykkishólm og vorum þar í orlofshúsi... raðhúsi á tveimur hæðum en bara 80 fermetrar samt, krúttlegt bara. Lilja og Óskar buðu okkur með sér og þetta var barnlaus ferð.  Þetta var hvíldarferð, skemmtiferð, veiðiferð, skytteríisferð, vettvangsferð og skoðunarferð.... allt í sama pakkanum :)  Við vorum komin vestur um kl. 10 á föstudagskvöldið, ætluðum að veiða í Baulárvallavatni á leiðinni en ákváðum að fresta því til laugardags því við vorum ekki viss hvernig við ættum að komast inn í húsið. 
Á laugardagsmorgun (nótt að sumra mati :) kl. 4:00 vöknuðum við öll, strákarnir okkar ætluðu að kíkja á gæs og við vorum að spá í að fara að veiða fisk á meðan í Hraunsfirði.  Þeir fóru fyrst af stað en við vorum á báðum áttum því það var hífandi rok og grenjandi rigning.  Ég hringdi í Ágúst og hann sagðist ekki einu sinni myndu henda hundinum út!... svo við stelpurnar lögðumst bara aftur á koddann til kl 8:00. Þá vorum við bara að spjalla og svona þangað til strákarnir komu til baka um 9:30 en þá borðuðum við morgunverð öll saman. Þeir voru svo heppnir að veiða 3 stórar, feitar og fallegar grágæsir í landi Hóla í Helgafellssveit.  Svo var bara ekki til setunnar boðið, við hoppuðum í bílinn og fórum í Hraunsfjörð að veiða...  nei, ég meina baða orma... ég er orðin voða flink í því sko. Við gáfumst upp á Hraunsfirði um eittleytið og kíktum í Baulárvallavatn. Það var sama sagan þar.
Þegar við komum aftur í húsið þá lögðu strákarnir sig á meðan við elduðum þennan líka ljómandi góða mat. Það var grillaður, beikonvafinn hörpuskelfiskur með engifersósu í forrétt... slurp... og grillaðar, gráðostafylltar kjúklingabringur í aðalrétt... meira slurp...  með þessu drukkum við eðal Riesling hvítvín.  Við fengum okkur líka gönguferð um plássið eftir matinn og fórum svo þreytt og sæl að sofa um miðnætti.
Á sunnudagsmorgun kl. 4:00 endurtók sagan sig nema við stelpurnar vorum ekkert að fara fram úr í þetta sinn. Þeir komu heim rennblautir og fenglausir í þetta sinn en sælir samt. Við tókum til í húsinu og lögðum af stað. Ákveðið var að keyra fyrir jökul. Það tók okkur allan daginn en það var dásamlegt veður. Við skoðuðum helling á leiðinni.  Stoppuðum í Skarðsvík við Öndverðarnes og borðuðum ís með súkkulaðisósu og Toblerone-kurli... hrikalega gott og hrikalega skemmtilegt. Þessi fjara er svakalega falleg, ég mæli með henni sem áningarstað á Snæfellsnesi.  Gulur og fallegur sandur og stórkostlegt landslag og útsýni. Við komum líka við í Hólahólum, stutt samt en gengum svo allan Djúpalónssandinn, við tókum á aflraunasteinunum og vorum öll hálfdrættingar, gaman að því.
Þarna var klukkan farin að verða soldið margt svo við slepptum Arnarstapa og Sönghelli sem við ætluðum að kíkja á þar til næst en við kíktum á Ölkeldu, sem er bær í Staðarsveitinni þar sem er brunnur með ölkelduvatni u.þ.b. 10-30 km djúpur!!! Við smökkuðum þetta eðalvatn og fannst það heldur ólystugt á bragðið... mér datt helst í hug vatn sem var búið að liggja á ryðguðum nöglum... ótrúlega mikið járnbragð.  Eftir það brunuðum við bara í bæinn, sæl og glöð með góða ferð.

Á morgun kemur nýr dagur með nýjum áherslum, njótið hans, hann er Guðs gjöf.

Hrafnhildur


Frumburðurinn tvítugur!

Já... undur og stórmerki... "litla" barnið mitt er orðið fullorðið. Ég á eiginlega ekki orð.  Því hann er sko alls ekkert lítill og nú er hann kominn á þrítugsaldur... Ég er viss um að þetta er einhver misskilningur... er ég ekki á þrítugsaldri???

Vidar

Innilega til hamingju með daginn Viðar minn. Þú ert Guðs gjöf í líf okkar.

 

Viðar er einstaklega blíður og góður strákur og það er alveg sama hvar hann fer hann fær nákvæmlega þau ummæli. Hann átti frekar erfitt allan grunnskólann því hann lenti í einelti þar alla tíð og allir kennarar og aðrir fræðingar voru sammála um það að það var eingöngu vegna þess hversu rólegur og ljúfur hann er sem hann komst nánast klakklaust í gegnum þetta.

Honum vegnar vel í lífinu í dag, er í góðri vinnu með góð laun. Hann á ljúfa kærustu sem honum líður vel með og nýtur lífsins. Við elskum þig út fyrir endimörk alheimsins KissingHeart

Emil Agnar frændi minn á líka afmæli í dag og fyllir fyrsta tuginn sinn. EmilHann er stór og myndarlegur strákur eins og hann Viðar minn og á framtíðina fyrir sér.  Innilega til hamingju með daginn sæti frændi.

 Þessi helgi var nú ekkert sérlega góð við mig. Ég ætlaði svo að njóta bæjarhátíðarinnar hér. Hún byrjaði með Stuðmannatónleikum á íþróttavellinum á fimmtudagskvöldið og ég fór á þá... rosa gaman. Það var svo brekkusöngur á föstudagskvöldið og flóamarkaður og fleira á sunnudaginn en ég lagðist bara kylliflöt með 39° hita á föstudagskvöld! Hrmpf....  ég skrapp svo til læknis á sunnudagsmorgun og fékk pensillin og Ibufen þannig að ég gat drattast í vinnuna í dag. Mér er ennþá hundillt í hálsinum og frekar þreytt og slöpp en þetta merst.  Það er klikkað að gera í vinnunni, ein erfiðustu mánaðarmót á árinu og eru skólarnir verstir... ótrúlega margt fólk að hætta og aðrir að byrja og allt pappírsflóðið sem fylgir þessu... úff... En ég ætla líka að verðlauna mig og kallinn minn með því að fara á Snæfellsnes næstu helgi og veiða.... jibbý! :)

Ég er voðalega "þurr" eitthvað hvað blogg varðar svo ég býð bara góða nótt að sinni.

Elsk'ykkur öll

Hrafnhildur


Viðburðarrík vika

Halló fólk... Smile

Þessi vika er búin að vera frekar annasöm... á þriðjudagskvöld fórum við í göngu um Elliðaárdalinn með fullt af fólki úr kirkjunni, uþb 50 manns. Það er gönguhópur sem kallar sig 7TS sem stóð fyrir göngunni.  Þetta var "létt" ganga að mati spekinga en ég gekk algjörlega frá mér hehe. Ég var svo slæm í hælnum daginn eftir að ég ætlaði ekki að komast á lappir! Undecided En ég skellti bara í mig Voltaren rapid og verkjalyfjum og "meikaði" daginn. Sá dagur (mið) hófst með því að við fórum á fasteignasöluna okkar til að skrifa undir afsal og borga lokagreiðslu í húsinu okkar, gaman, gaman :)

Ágúst er búinn að vera hundslappur alla vikuna með Bronkítis eins og litlu börnin og eiginlega erum við öll hundkvefuð á þessu heimili.

Á föstudaginn byrjaði ég nú á að misstíga mig herfilega á bílastæðinu fyrir utan vinnuna mína... ég þoli ekki að vera með svona léleg liðbönd... þetta gerist reglulega og ég var að drepast í fætinum allan daginn...  Um kvöldið var svo götugrill í nýju götunni okkar. Það er víst árviss viðburður á föstudagskvöldi fyrir menningarnótt. Það tókst svakalega vel og okkur líst mjög vel á alla nágrannana. Allir fóru í fótbolta og spilað var börn á móti fullorðnum, hrikalega gaman og auðvitað rúlluðu krakkarnir þeim eldri upp hehe. Það ríkir greinilega eining hér milli manna því þetta var eins og ein stór fjölskylda. Krakkarnir haga sér bara eins og stór systkinahópur, sem mér fannst alveg magnað. Unglingsstelpur að leika sér við yngri stráka og knúsast og láta bara eins og bræður og systur! Frábært alveg.  Þegar verið var að koma öllu heim og saman fyrir grillið, þ.e. allir voru að koma með grillin sín og borð og stóla og allt svoleiðis þá voru kallarnir eins og krakkar hehe... það var sett upp partýtjald með hliðum og á það var hengt hvítt lak, svo kom einn með netkapla í kassavís og annar með sjónvarpsrouterinn sinn og skjávarpa og Ágúst með risastóra hátalara... þeir föndruðu svo þetta líka flotta bíó úti á flöt og við vorum með tónleikana beint í æð!  Geggjað. Þegar þeir voru búnir þá var bara skipt um rás og við lentum á einhverri country rás...  þá fékk ég náttúrulega fiðring í fæturnar og kenndi öllum línudans hehe. Svo var bara spjallað og leikið til kl. 2 um nóttina. Kallarnir voru í wiskey og koníaki meðan konurnar voru með kakó og Stroh... Við Ágúst vorum að vísu mjög hógvær í þeim efnum.  Ég er sko mikið glöð að tilheyra þessari stóru fjölskyldu.

En þegar ég ætlaði að setja blessuðu uppþvottavélina mína í gang eftir grillið þá bilaði druslan! Ég sá fyrir mér þá martröð að þurfa að vaska upp næstu daga og fór að sofa með þá hugsun í kollinum hehe. En svo í gær þá bara skoðaði ég vélina vel, lagaði allar slöngur og þreif allar síur og þá fór nú blessunin í gang aftur :)

Ágúst var svo að vinna í gær til kl. 4. Margrét var líka að vinna í Blend og Haukur var í sjálfboðavinnu í skipi sem heitir LOGOS II niðri í Reykjavíkurhöfn.  Ég skutlaði þeim báðum og þegar ég var búin að skutla Hauki um eittleytið þá ætlaði ég aldrei að komast út úr miðbænum aftur, þvílík martröð. Ég lenti nefnilega í menningarnætur umferð og lokunum vegna Glitnismaraþons! Keyrði í marga hringi og komst aldrei út fyrr en ég keyrði út að gamla JL húsi og komst þá Hringbrautina eins og ALLIR hinir... Angry  sem þýddi náttúrulega 20 mín að komast frá JL út að þjóðminjasafni! Ojsen...  Ég fór strax að kvíða því að þurfa að sækja hann seinnipartinn. Ég fór svo heim og gerði okkur klár til að fara að veiða seinnipartinn því ég átti orðið erfitt með að hemja veiðlöngunina :) Kl. 17:30 lögðum við af stað til að sækja liðið og sögðum Hauki bara að ganga meðfram Sæbrautinni eins langt og hann kæmist og við myndum pikka hann upp. Þegar við svo erum nýkomin af Ártúnsbrekkunni inn á Breiðholtsbraut/Kleppsvegur/Sæbraut... (veit aldrei hvað gatan heitir þarna) allavega vorum við að nálgast Endurvinnsluna... þá kom rautt ljós og Ágúst steig á bremsuna og.... EKKERT GERÐIST!!! Við urðum sem sagt bremsulaus. Ágúst hrópaði: Bremsurnar eru farnar! Ég fékk þvílíkan hjartslátt og Ágúst reif í handbremsuna og við skrensuðum inn á mið gatnamótin! Úff... þvílíkar sekúndur! Guði sé lof fyrir það að enginn var fyrir framan okkur og enginn að fara yfir á grænu ljósi hinum megin. Svo er líka Guði fyrir að þakka að Viðar, sem var farinn í sumarbústað í Ölfusborgum... rétt skrapp í bæinn til að sækja eitthvað sem hann gleymdi og var staddur í Smáralindinni.  Hann brunaði fyrir okkur að sækja Hauk... sem var orðinn lúinn og sestur á bekk við Glitni á Kirkjusandi og vinir hans fóru að sækja Margréti í Kringluna.  Við jöfnuðum okkur í smástund og Ágúst fann út að bremsuklossi hafði færst til og glussi lak út... og svo keyrði Ágúst bara bílinn heim bremsulausan... en það er mjög öflug handbremsa á honum svo þetta var ekki mikið mál... bara keyrðum hægt með hazard ljósin á.  Þegar heim kom þá hentum við bara öllu veiðidótinu í Polo og fórum aftur af stað til að veiða ;) 

Við keyrðum í samfloti við Lilju og Óskar að Kleifarvatni og böðuðum nokkra orma, makríl og rækjur fram undir miðnætti. Veðrið var dásamlegt... logn og svalt en við erum viss um að það eiga engir fiskar heima í Kleifarvatni því það var ekki einu sinni nartað!

Í morgun vöknuðum við svo snemma því Ágúst þurfti að fara að sækja einhvern bissnesskall út á flugvöll fyrir yfirmann sinn sem er erlendis sjálfur. Hann fékk til þess svakalega flottan bíl yfirmannsins... Benz .....eitthvað  hehe 510 hestöfl...  Allavega tugmilljón króna jepplingur með öllu sem hægt er að hugsa sér bara. Það þarf bara að hafa lykilinn í vasanum og starta svo bara með takka... svo er myndavél sem kveikir á sér þegar hann er settur í bakkgír! Og til að kóróna letilífið þá opnar maður OG LOKAR skottinu með takka í hurðinni. Snilldarbíll.  Ágúst er búinn að hafa hann alla vikuna en við vildum ekki fara á honum neitt út fyrir malbikið. Ég á nefnilega ekki 13 millur í vasanum ef eitthvað kemur fyrir :)

Er að vinna í því að setja fleiri myndir á myndasíðuna :)

 Jæja... þetta var nú aldeilis romsan...

... Hrafnhildur

 


Helgin

Ég var að horfa á bíómyndina Apocalypto eftir Mel Gibson og þvílíka subbumyndin!  Söguþráðurinn var svo sem í lagi en þetta er blóðbað frá upphafi til enda... ojjj...  Mel Gibson er orðinn eitthvað skrítinn held ég bara.

Burtséð frá því þá skruppum við út úr bænum um helgina. Tjölduðum á tjaldstæðinu í Hraunborgum, Grímsnesi og það var nú aldeilis flottur staður. Ferlega "homie" og snyrtilegt. Tilgangurinn með ferðinni var nú að skreppa aðeins að baða orma í Úlfljótsvatni og það var einmitt það sem ég gerði! Blessaðir fiskarnir voru bara í sólbaði og ulluðu á mig. Ágúst fékk einn pundara og þar með er það upptalið. Lilja og Óskar sem voru með okkur fengu heldur ekkert. Veðrið var dásamlegt, hiti og blíða bara. Við skruppum í heimsókn til Sirrýjar og Guðjóns sem voru í sumarhúsi í Grímsnesinu og það var aldeilis skemmtilegt. Þau voru með sína 3 hunda og svo mættum við með Þulu og Lilja og Óskar með Rómeó og Júlíu svo það voru alls 6 hundar að hlaupa um svæðið meðan við stoppuðum. Þula og AgnarögnHamagangur á hóli LoL Þula mín er nú ekki lítil en á þessari mynd, með vinkonu sinni henni Agnarögn mætti halda að hún væri bara hvolpagrey Grin

Á sunnudaginn tókum við því rólega bara á tjaldsvæðinu fram yfir hádegi en tókum svo saman. Það er gaman frá því að segja að á tjaldsvæðinu var þríburafélagið með hitting, hrikalega gaman að fylgjast með foreldrum og börnum. Mér fannst alveg nóg að vera með tvíbura Shocking

Við keyrðum Þingvallaleiðina heim og ákváðum að henda bara öllu draslinu heim og fara síðan afturúpp á Þingvelli... sem við og gerðum. Það fékkst ágætis útivera og samvera út úr því ásamt því að baða fleiri orma. Say no more. Happy  Nú ætla ég að bíða þar til kemur rigning... þá fer ég aftur að veiða.

En nú kallar koddinn...  og kallinn

Hrafnhildur


Sumar

Ég er búin að draga það endalaust að blogga því mér finnst hreinlega ekkert um að vera hjá mér nógu merkilegt til að segja frá.

Við höfum átt mjög gott sumar. Við fórum í frí 18. júní og vorum í 4 vikur. Það eru mörg ár síðan við höfum farið í svo langt samfellt  frí saman enda var það alveg frábært. Sól og blíða upp á hvern einasta dag. Við fórum ekki mikið í ferðalög enda mikið að gera á STÓRU heimili J Við kláruðum að mestu leyti að koma okkur fyrir, samt eru ennþá nokkrir kassar í kjallaranum sem bíða eftir að vera tæmdir. Svo á eftir að leggja lokahönd á að setja myndir á veggina en mér finnst ekkert liggja rosalega mikið á því. Þetta verður að vera þannig að ég þurfi ekki að breyta eða skipta út, heldur vera svoleiðis alltaf.

Okkur tókst að rækta aðeins eitt skemmtilegasta áhugamál mitt í sumar, stangveiði. Ég elska að veiða! Aðeins einu sinni kom ég heim með öngulinn í rassinum og það var á fjölskyldudegi Múrbúðarinnar í Hvammsvík (eini staðurinn sem það á ekki að vera hægt að veiða EKKI!) En við fórum nokkrar ferðir í Úlfljótsvatn og höfðum ágætt upp úr því.  Ég veiddi til dæmis stærsta fisk sem ég hef veitt, 6 punda urriða sem tók makríl. Við náðum líka í 4 punda urriða þar og nokkra tveggja punda fiska… gaman, gaman J  Það skyggði þó á ánægjuna klúðrið sem við lentum í við Reykás úti á Granda. Við fórum sem sagt með fiskana okkar, 4 stk., í reyk, þeir voru samtals 5,2 kg. slægðir en með haus sem þýddi miðað við 50% rýrnun að við ættum að fá 8 flök sem yrðu u.þ.b. 2,5 kg. Maðurinn meira að segja spurði okkur hvort við vildum fá stóra fiskinn í bitum eða heilu flaki! En viti menn… þegar við sóttum fiskinn fengum við jú,jú 2,5 kg af reyktum fiski… en það voru heil 30 flök! Svo þið sjáið hversu smá flök það hafa verið… og ekki var það fiskurinn minn.  Kallinum þótti þetta leiðinlegt en ekki meira en það og bætti okkur þetta með þremur stórum flökum frá sér.  En stóri, flotti fiskurinn minn var glataður… einhver annar fékk að borða hann… L Það segir mér þó bara að ég fer næst í Reykofninn.

Verslunarmannahelgin hjá okkur var fín, fórum á Kotmót og vorum með fellihýsið þar þetta árið í staðinn fyrir að vera á Fitinni, ætluðum að vera duglegri við samkomurnar.  Meirihluti tíma okkar fór þó í sjoppuvinnu og það getur verið voða lýjandi get ég sagt  ykkur.  Ég stefni á að verja næsta Kotmóti í að njóta meira en að þjóna en hver veit hvað gerist fyrr en kemur að því.  Á laugardeginum var svo okkar árlega fjölskyldugrill sem er orðinn fastur liður. Mér finnst það frábært því það er alltof sjaldan sem þessi stóra fjölskylda hittist.  Þetta er orðinn svo fjölmennur hópur undan elskulegri ömmu Hrefnu og afa Magga. Mér finnst gaman að fylgjast með því núna að það eru myndast 8 nýir ættfeður (og mæður)  J Yngsta “barn” afa og ömmu er orðinn afi… tíhíhí… J  

Þessi mynd hér að neðan sýnir þó hvað þau eru öll ung í anda J 

2007-08-04 20-20-53

Þess vegna finnst mér svo mikilvægt að þessi hittingur um verslunarmannahelgi verði fastur liður í tilverunni því mér finnst svo mikilvægt að allir þekkist. Það er sorglegt þegar maður þekkir ekki frændfólk sitt í sjón. Sammála, ha?

Ég kom heim úr ferðalaginu með hálsbólgu og kvef og hef verið heima í 3 daga. Ætla samt að rífa mig upp á morgun og fara í annað ferðalag. Mig langar svo að fara að veiða J

Ég ætla að biðja Guð að hjálpa mér að vera duglegri að blogga…

PS. Ég er búin að setja eitthvað af nýjum myndum á ljósmyndasíðuna okkar og fleiri eru væntanlegar. Ég er líka að reyna að upphugsa eitthvað aðgengilegra viðmót svo hún verður kannski svolítið kjánaleg á meðan.

Elsk’ykkur öll

Hrafnhildur


Skrítið fólk...

Alveg getur fólk gengið fram af manni með undarlegri framkomu svo ekki sé meira sagt. Ég á frænku... sem samt vill ekki vera frænka mín... eða fólksins míns... tek það til mín líka. Vanþroskinn á þeim bæ er yfirgengilegur að mínu mati.

Ég skil ekki hvað fólki gengur til þegar það "drullar" yfir aðra nafnlaust...  En það er verst fyrir það sjálft.


Hrmpf...

Ég er svo fúl og svekkt yfir þessum úrslitum að það hálfa væri nóg! Mín skoðun er sú að Friðrik Ómar átti að vinna þetta.  Lagið hans er með bestu melódíuna og að mínu mati langlíklegast til að komast upp úr forkeppninni. Það er alveg búið að taka alla spennu úr mér fyrir aðalkeppninni í maí.

Þessi síða....

Ætla að reyna að halda úti þessari síðu líka til að missa hana ekki.. það getur vel verið að ég noti hana í nánustu framtíð... mér finnst sniðugur möguleikinn á að blogga um fréttir.

Leyfi ykkur að fylgjast með síðar

 Over and out

Hrafnhildur


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband