Amma Hrefna - minning

Hrefna

Amma mín var fullkomin. Hún var ekta amma. Ég kallaði hana alltaf ömmu í sveitinni. Ég minnist hennar fyrst og fremst fyrir gæsku, góðmennsku og ósérhlífni.  Ég var svo heppin að fá að vera hjá henni og afa nokkur sumur þegar ég lítil stelpa. Amma mín var iðin kona sem var að verki frá morgni til kvölds.  Hennar morgunn byrjaði fyrir kl. 6 á morgnana og ég gat ómögulega skilið hvernig hún gæti vaknað svona snemma. Nokkrum sinnum reyndi ég að stilla vekjaraklukku og læðast niður af lofti til að reyna að vakna á undan henni. Það gekk aldrei því ef ég náði henni í rúminu þá var hún þegar vöknuð og las í Biblíunni sinni. 

Oft og iðulega var margt fólk í sveitinni hjá ömmu og afa. Á föstudögum yfir sumarið átti húsið þeirra til að fyllast af fólki en það var alveg sama hversu margir komu, hún gat alltaf töfrað fram mat handa öllum. Pottarnir hennar voru eins og taskan hennar Mary Poppins, það kom endalaust upp úr þeim.

Amma mín var mér alltaf mjög góð. Hún var vinkona mín. Við gátum setið og spjallað um heima og geima eins og jafnaldrar.  Ég gat líka verið henni óttalega erfið með uppátækjum og þá skammaði hún mig. En hún var aldrei reið lengi, bara nokkrar mínútur og þá var hún aftur orðin vinkona mín.  Við vinkonurnar brölluðum heilmikið saman. Ég fór t.d. oft með henni út í garð þegar leið að miðnætti á kvöldin og hún kenndi mér að veiða ánamaðka handa veiðimönnunum í fjölskyldunni.  Við fórum líka og  tíndum kúmen í bakstur, rifum upp rabarbara í sultu og graut og fórum í hænsnahúsið með mat handa hænunum.

Þegar ég varð eldri héldum við áfram að vera vinkonur. Ég minnist þegar ég var ófrísk að tvíburunum mínum, þá dreymdi hana draum um að ég stæði við lærið á sér og hún var að elda kjöt í potti. Það var tvenns konar kjöt svo hún var viss um að ég væri með bæði kynin. Það var svo.

Amma er fyrirmynd mín í lífinu. Hún var kærleiksrík kona og mismunaði engum. Hún var sannkristin kona sem lét verkin tala fremur en orðin. Ég er heppin manneskja að hafa átt hana fyrir ömmu.

Amma mín, ég veit að nú ert þú komin heim, búin að hitta afa og föðurinn á himnum. Nú eru engin veikindi sem halda þér fanginni og ég sendi þér kveðju heim.

Þín vinkona Hrafnhildur

Minningargrein birt í Morgunblaðinu 31.08.2008


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Elsku vinkona

ég samhryggist þér og fjölskyldu þinni með fráfall ömmu þinnar, en er jafn viss og þú að nú líður henni vel.

kveðja Þrúður

Þrúður (IP-tala skráð) 1.9.2008 kl. 10:20

2 identicon

Alveg ekta - æðisleg grein hjá þér og allt saman svo ekta amma :)

Hafrún Ósk (IP-tala skráð) 2.9.2008 kl. 12:05

3 identicon

Hæ skvísa, hvar ertu eiginlega????????????? Það eru að koma jól og ekkert blogg hjá þér síðan í sumar. Njóttu lífsins

kv Erlan

Erla B (IP-tala skráð) 24.11.2008 kl. 20:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband