29.12.2008 | 02:04
Sitt lítið af hverju...
Jæja... kannski það sé kominn tími á að setja nokkrar línur hér inn.
Þetta haust hefur verið þokkalega strembið og slatti að gera. Ég t.d. fór að vera meira á facebook en hér og það er skýringin á bloggleysinu. Er samt eiginlega að fatta að bloggið má ekki alveg deyja. Ætla að reyna að blogga oftar... kannski tvisvar í mánuði frekar en tvisvar á ári... tíhíhí...
Það var ekki alveg laust við að maður fylgdi straumnum í stressinu þegar fjármálageirinn lagðist á hliðina. Ótrúlegt en ég man að ég var með stresshnút í maganum í nokkra daga þarna í október, eiginlega bara yfir óvissunni. Ég vissi að stórir og alvarlegir hlutir væru að gerast en einhvern veginn náði ekki að hugsa um afleiðingarnar og allt sem gæti gerst. Mér fannst líka óvissan ótrúlega löng. Það var svo langur tími sem maður vissi bara ekki neitt. Ég þóttist nokkuð örugg með allt mitt og hugsaði fallega til allra sem væru að lenda í hremmingum. Ég er með íslenskt lán á húsinu mínu, öll börnin mín í vinnu og við hjónin líka. Svo leið ekki á löngu að Margrét missti laugardagana sem hún hafði hjá Múrbúðinni og Haukur fékk reisupassann hjá Húsasmiðjunni eins og 100 aðrir. Hann var að vísu fljótur að koma sér aftur í Bónus en ekkert fast samt, bara hóað þegar vantar, en það er víst betra en ekkert. Það var búið að fara eina hreinsun í Múrbúðinni sem Ágúst slapp í gegnum svo maður var bara rólegur ennþá. 30. nóv. kom hann svo heim með bréf... Uppsögn 50% starfshlutfalli... tímabundið, endurskoðað í vor. Glatað... Við ákváðum samt að láta það ekki skemma jólin og það sem þeim fylgir og erum búin að vera þokkalega róleg. Það er samt ekki laust við að það blundi smá óróleiki yfir þessu en við eigum stóran og góðan Guð sem sér fyrir sínum.
Ágúst fór strax að spá í hvað hann gæti gert í þessari krísu og skráði sig í nám hjá ISOFT í Microsoft kerfisstjórn. Hann ætlar að ná sér í 4 alþjóðlegar gráður í Windows server fræðum. Það kostar að vísu helling en hann er búinn að hafa samband við stéttarfélagið sitt og þar á hann í sjóðum sem geta dekkað 50-75% af kostnaðinum. Bara jákvætt ;) Ég veit að ég er örugg í minni vinnu og þökk sé nýjum kjarasamningum þá er ég að hækka um 20.300,- kr. í mánaðarlaun.
Það hefur verið, vægt til orða tekið, brjálað að gera í minni vinnu. Það var ákveðið að innleiða nýtt launakerfi og það er meira en að segja það að gera það. Allavega 3ja mánaða "prósess". Við unnum til 10 á kvöldin og alla laugardaga til að ná endum saman í nóvember. Svo ákvað ein af okkur að hætta á launadeildinni og fara í bókhaldið þannig að við vorum undirmannaðar allan desember, ný manneskja byrjaði um miðjan des. sem var bara gott en tekur alltaf tíma að koma nýrri manneskju inn í starfið. Skrifstofunni okkar var breytt og við vorum útlægar í eina viku, komumst ekki í gögnin og þurftum að finna okkur lausar tölvur í húsinu til að geta unnið eitthvað á meðan verið var að brjóta veggi og mála hjá okkur. Í ofanálag kom nýr kjarasamningur, Mosfellsbær yfirtók nýju Íþróttamiðstöðina sem Nýsir rak OG það voru að koma jól! Ég hefði gefið mikið fyrir að geta verið í fríi milli jóla og nýárs en nú sit ég kl. að verða tvö um nótt og á að mæta í vinnu kl. 8 í fyrramálið...
En nóg af leiðindum... það er líka ljós í þessari tilveru ;) Við keyptum okkur ekki nýjan bíl á þessu ári eins og við höfðum mikið verið að spá í. Við gerðum pall og pott með öllu tilheyrandi án þess að fá lánað fyrir því. Við lentum í vatnstjóni og fengum vel úr tryggingunum. Allir á heimilinu eru vel heilbrigðir og hamingjusamir. Viðar er ennþá í sinni vinnu og er kominn með kærustu ;) Hauki gekk vel í skólanum og á orðið marga, marga vini þar (ólíkt því sem var í gaggó). Margréti gekk vel í prófunum í FÁ en ákvað að skipta um skóla og byrjar í Borgó eftir áramót.
Haukur og Margrét urðu 17 ára í nóvember og fengu bílpróf eins og tilheyrir þeim aldri og ég ætla ekki að byrja á því að segja ykkur hvað það er þægilegt að hafa alla bílandi á heimilinu. Ekki nóg með að ég þurfi ekki lengur að skutla út um allt heldur þarf ég ekki heldur að fara sjálf allt! Þau eru alltaf boðin og búin að skutlast fyrir mig það sem þarf... yndislegt líf hehe. Margrét og Grétar eru ennþá saman og eru ótrúlega hamingjusöm. Þau eru mest hérna hjá okkur og þykir mér rosalega vænt um það. Foreldrar hans fengu hann þó lánaðan á aðfangadagskvöld
Við vorum einmitt að koma úr heimsókn frá þeim í kvöld, þau buðu okkur í kaffi, konfekt og osta yfir spjalli og þetta var yndisleg kvöldstund með yndislegu fólki. Fólki sem á lifandi Guð eins og við. Ég get þess vegna ekki kvartað yfir neinu.
Jæja dúllur, (þið sem ennþá kíkið á mig hér) Njótið lífsins því Guð gaf okkur það og lítið alltaf á björtu hliðarnar því ekkert vandamál er of stórt fyrir Guð að leysa. Það þarf bara að biðja hann um það.
Elsk'ykkur öll
Hrafnhildur hamingjusama.
Athugasemdir
Takk fyrir skemmtilegt blogg kæra frænka. Það er alltaf gaman að lesa skrifin þín. Um að gera að vera jákvæður því í raun og veru höfum við það mjög gott og sólin er enn á bakvið skýin og þau fjúka burt fyrr en varir. Þú átt yndislega fjölskyldu og vel gerða og það er einmitt það sem skiptir öllu máli. Vonast til að sjá ykkur hér í Húsinu við ána næsta laugardag. Selfosskveðja, Erlan
Erlan (IP-tala skráð) 29.12.2008 kl. 11:50
Vá, gaman að lesa færsluna frá þér ;) Alltaf gaman!! Leiðinlegt að heyra með vinnuna hjá þeim öllum en það kemur eitthvað gott út úr þessu eins og öllu! Sjáumst vonandi á laugardaginn ;)
Þú ert frábær!!!
Íris E (IP-tala skráð) 29.12.2008 kl. 17:11
jamm "mikið var að beljan bar" sögðum við í sveitinni þegar við vorum búin að bíða lengi eftir einhverju og það loksins kom:)
mamma (IP-tala skráð) 30.12.2008 kl. 12:59
Ótrúlega mikið gaman að lesa nýtt blogg hjá þér =)
Vonandi fer allt vel með vinnumál í fjölskyldunni og við sjáumst vonandi á laugardaginn :):)
Eygló (IP-tala skráð) 30.12.2008 kl. 18:27
Það er nú eins gott að "commenta" á bloggið þitt svo þú hvetjist áfram.... Bloggheimurinn má nebbla ekki deyja út af face-inu...
Alltaf svo gaman að lesa og þó ég vissi flest þá var það samt gagnlegt.... En, ég veit og trúi því að vinnumálin fari vel og Guð muni passa ykkur áfram sem hingað til :)
Sjáumstumst
Hafrún
Hafrún Ósk (IP-tala skráð) 1.1.2009 kl. 20:35
Mikið rosalega er alltaf uppörfandi og skemmtilegt að lega bloggið þitt maður labbar frá tölvunni helmingi sáttari við lífið, þú ert bara frábær.Ég kíki alltaf regglulega á þig hér og ég var frekar feginn að sjá nýtt blogg.Þurfum að fara að hittast kveðja Inga
Inga (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 14:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.