Sitt lítið af hverju...

Jæja... kannski það sé kominn tími á að setja nokkrar línur hér inn. Tounge

Þetta haust hefur verið þokkalega strembið og slatti að gera.  Ég t.d. fór að vera meira á facebook en hér og það er skýringin á bloggleysinu.  Er samt eiginlega að fatta að bloggið má ekki alveg deyja. Ætla að reyna að blogga oftar... kannski tvisvar í mánuði frekar en tvisvar á ári... tíhíhí...

Það var ekki alveg laust við að maður fylgdi straumnum í stressinu þegar fjármálageirinn lagðist á hliðina.  Ótrúlegt en ég man að ég var með stresshnút í maganum í nokkra daga þarna í október, eiginlega bara yfir óvissunni. Ég vissi að stórir og alvarlegir hlutir væru að gerast en einhvern veginn náði ekki að hugsa um afleiðingarnar og allt sem gæti gerst. Mér fannst líka óvissan ótrúlega löng.  Það var svo langur tími sem maður vissi bara ekki neitt.  Ég þóttist nokkuð örugg með allt mitt og hugsaði fallega til allra sem væru að lenda í hremmingum.  Ég er með íslenskt lán á húsinu mínu, öll börnin mín í vinnu og við hjónin líka.  Svo leið ekki á löngu að Margrét missti laugardagana sem hún hafði hjá Múrbúðinni og Haukur fékk reisupassann hjá Húsasmiðjunni eins og 100 aðrir.  Hann var að vísu fljótur að koma sér aftur í Bónus en ekkert fast samt, bara hóað þegar vantar, en það er víst betra en ekkert.  Það var búið að fara eina hreinsun í Múrbúðinni sem Ágúst slapp í gegnum svo maður var bara rólegur ennþá.  30. nóv. kom hann svo heim með bréf...  Uppsögn 50% starfshlutfalli... tímabundið, endurskoðað í vor.  Glatað...  Við ákváðum samt að láta það ekki skemma jólin og það sem þeim fylgir og erum búin að vera þokkalega róleg.  Það er samt ekki laust við að það blundi smá óróleiki yfir þessu en við eigum stóran og góðan Guð sem sér fyrir sínum.
Ágúst fór strax að spá í hvað hann gæti gert í þessari krísu og skráði sig í nám hjá ISOFT í Microsoft kerfisstjórn.  Hann ætlar að ná sér í 4 alþjóðlegar gráður í Windows server fræðum.  Það kostar að vísu helling en hann er búinn að hafa samband við stéttarfélagið sitt og þar á hann í sjóðum sem geta dekkað 50-75% af kostnaðinum. Bara jákvætt ;)  Ég veit að ég er örugg í minni vinnu og þökk sé nýjum kjarasamningum þá er ég að hækka um 20.300,- kr. í mánaðarlaun.

Það hefur verið, vægt til orða tekið, brjálað að gera í minni vinnu.  Það var ákveðið að innleiða nýtt launakerfi og það er meira en að segja það að gera það. Allavega 3ja mánaða "prósess".  Við unnum til 10 á kvöldin og alla laugardaga til að ná endum saman í nóvember.  Svo ákvað ein af okkur að hætta á launadeildinni og fara í bókhaldið þannig að við vorum undirmannaðar allan desember, ný manneskja byrjaði um miðjan des. sem var bara gott en tekur alltaf tíma að koma nýrri manneskju inn í starfið.  Skrifstofunni okkar var breytt og við vorum útlægar í eina viku, komumst ekki í gögnin og þurftum að finna okkur lausar tölvur í húsinu til að geta unnið eitthvað á meðan verið var að brjóta veggi og mála hjá okkur. Í ofanálag kom nýr kjarasamningur, Mosfellsbær yfirtók nýju Íþróttamiðstöðina sem Nýsir rak OG það voru að koma jól!  Ég hefði gefið mikið fyrir að geta verið í fríi milli jóla og nýárs en nú sit ég kl. að verða tvö um nótt og á að mæta í vinnu kl. 8 í fyrramálið...  Shocking

En nóg af leiðindum... það er líka ljós í þessari tilveru ;) Við keyptum okkur ekki nýjan bíl á þessu ári eins og við höfðum mikið verið að spá í. Við gerðum pall og pott með öllu tilheyrandi án þess að fá lánað fyrir því.  Við lentum í vatnstjóni og fengum vel úr tryggingunum. Allir á heimilinu eru vel heilbrigðir og hamingjusamir.  Viðar er ennþá í sinni vinnu og er kominn með kærustu ;)  Hauki gekk vel í skólanum og á orðið marga, marga vini þar (ólíkt því sem var í gaggó).  Margréti gekk vel í prófunum í FÁ en ákvað að skipta um skóla og byrjar í Borgó eftir áramót. 
Haukur og Margrét urðu 17 ára í nóvember og fengu bílpróf eins og tilheyrir þeim aldri og ég ætla ekki að byrja á því að segja ykkur hvað það er þægilegt að hafa alla bílandi á heimilinu. Ekki nóg með að ég þurfi ekki lengur að skutla út um allt heldur þarf ég ekki heldur að fara sjálf allt!  Þau eru alltaf boðin og búin að skutlast fyrir mig það sem þarf... yndislegt líf hehe.  Margrét og Grétar eru ennþá saman og eru ótrúlega hamingjusöm.  Þau eru mest hérna hjá okkur og þykir mér rosalega vænt um það.  Foreldrar hans fengu hann þó lánaðan á aðfangadagskvöld LoL 

Við vorum einmitt að koma úr heimsókn frá þeim í kvöld, þau buðu okkur í kaffi, konfekt og osta yfir spjalli og þetta var yndisleg kvöldstund með yndislegu fólki. Fólki sem á lifandi Guð eins og við.  Ég get þess vegna ekki kvartað yfir neinu.

Jæja dúllur, (þið sem ennþá kíkið á mig hér)  Njótið lífsins því Guð gaf okkur það og lítið alltaf á björtu hliðarnar því ekkert vandamál er of stórt fyrir Guð að leysa.  Það þarf bara að biðja hann um það.

Elsk'ykkur öll

Hrafnhildur hamingjusama.


Amma Hrefna - minning

Hrefna

Amma mín var fullkomin. Hún var ekta amma. Ég kallaði hana alltaf ömmu í sveitinni. Ég minnist hennar fyrst og fremst fyrir gæsku, góðmennsku og ósérhlífni.  Ég var svo heppin að fá að vera hjá henni og afa nokkur sumur þegar ég lítil stelpa. Amma mín var iðin kona sem var að verki frá morgni til kvölds.  Hennar morgunn byrjaði fyrir kl. 6 á morgnana og ég gat ómögulega skilið hvernig hún gæti vaknað svona snemma. Nokkrum sinnum reyndi ég að stilla vekjaraklukku og læðast niður af lofti til að reyna að vakna á undan henni. Það gekk aldrei því ef ég náði henni í rúminu þá var hún þegar vöknuð og las í Biblíunni sinni. 

Oft og iðulega var margt fólk í sveitinni hjá ömmu og afa. Á föstudögum yfir sumarið átti húsið þeirra til að fyllast af fólki en það var alveg sama hversu margir komu, hún gat alltaf töfrað fram mat handa öllum. Pottarnir hennar voru eins og taskan hennar Mary Poppins, það kom endalaust upp úr þeim.

Amma mín var mér alltaf mjög góð. Hún var vinkona mín. Við gátum setið og spjallað um heima og geima eins og jafnaldrar.  Ég gat líka verið henni óttalega erfið með uppátækjum og þá skammaði hún mig. En hún var aldrei reið lengi, bara nokkrar mínútur og þá var hún aftur orðin vinkona mín.  Við vinkonurnar brölluðum heilmikið saman. Ég fór t.d. oft með henni út í garð þegar leið að miðnætti á kvöldin og hún kenndi mér að veiða ánamaðka handa veiðimönnunum í fjölskyldunni.  Við fórum líka og  tíndum kúmen í bakstur, rifum upp rabarbara í sultu og graut og fórum í hænsnahúsið með mat handa hænunum.

Þegar ég varð eldri héldum við áfram að vera vinkonur. Ég minnist þegar ég var ófrísk að tvíburunum mínum, þá dreymdi hana draum um að ég stæði við lærið á sér og hún var að elda kjöt í potti. Það var tvenns konar kjöt svo hún var viss um að ég væri með bæði kynin. Það var svo.

Amma er fyrirmynd mín í lífinu. Hún var kærleiksrík kona og mismunaði engum. Hún var sannkristin kona sem lét verkin tala fremur en orðin. Ég er heppin manneskja að hafa átt hana fyrir ömmu.

Amma mín, ég veit að nú ert þú komin heim, búin að hitta afa og föðurinn á himnum. Nú eru engin veikindi sem halda þér fanginni og ég sendi þér kveðju heim.

Þín vinkona Hrafnhildur

Minningargrein birt í Morgunblaðinu 31.08.2008


Hvíl í friði Leiru-Þula

Sennilega er nú kominn tími til að segja ykkur frá því að hún Þula okkar er farin til himna Crying.  Hún kvaddi þennan heim föstudaginn 27. júní.  Blessuð sé minning hennar. Hún var yndisleg tík sem náði aldrei að njóta lífsins eins og Labrador hundar eiga að gera.  Hún var alltaf bundin í taum þegar hún fór út fyrir hússins dyr og fékk aldrei að hlaupa um og leika sér. Í restina var hún orðin mjög aum greyið og það kom fyrir að hún lá í bælinu sínu og vældi bara umlaði því henni var svo illt í fótunum.  Langt og leiðinlegt ferli fór í gang þegar við tókum þá ákvörðun að best væri að hún fengi að fara og ætla ég ekki að tíunda það hér.  Það endaði þó vel.

Sumarið er búið að vera gott við mig og mína fjallafjölskyldu.  Við erum á fullu í pallagerð í garðinum okkar og það gengur hægt en örugglega :)  Krakkarnir okkar hafa verið rosalega dugleg að hjálpa okkur og fólk hefur orð á því að það sé ekki mjög algengt að sjá 16 ára unglinga með hamar og nagla eða skóflu og hjólbörur að hjálpa foreldrum sínum.  Ég er óendanlega þakklát fyrir þau.
Það er búið að gera grindina og nú er verið að pæla í lögnum og snúrum fyrir rafmagn og vatn.  Rafmagnið fyrir ljósum og vatnið fyrir heita pottinn :)  Við erum búin að kaupa efnið til að klæða gólfið og það bíður bara eftir því að við gefum okkur tíma í það.

Við erum bara búin að fara í eina útilegu í sumar. Það var síðasta helgin í júní og þá var stórfjölskylduhittingur Ágústar megin.  Fjölskyldan mín var stærri en venjulega því Grétar, kærasti Margrétar...  (jájá... tilvonandi tengdasonur... úffff þarna fékk ég svona "seinni-hálfleiks-hroll)  Gasp kom með og líka Guðjón, besti vinur Hauks.  Þetta eru drengir sem okkur Ágústi þykir afskaplega vænt um og eru orðnir hluti af fjölskyldunni :)  Fyrri nóttina sváfum við hvorki meira né minna en 8 stk í fellihýsinu og þá seinni vorum við 7 því Viðar fór heim á laugardeginum.  Mjög gaman bara.  Það var hellings rok þessa helgi en við vorum heppin með tjaldsvæði, vorum í fínu skjóli.

Við hjónin erum bara búin að taka eina viku í sumarfrí, það var í miðjum júní.  Ágúst kemst ekkert frá sinni vinnu fyrr en eftir verslunarmannahelgina þannig að þá verður fríið okkar bara í ágúst.  Ég tek undir gullvæga setningu sem ég sá á msn hjá henni Eygló frænku minni;  Bið er aldrei löng þegar hún er afstaðin.  Frábær lína.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra í bili, knús og kram út í lífið.

Hrafnhildur


Tími...

... er afstæður.  Mér finnst ég vera nýbúin að blogga en það er næstum mánuður síðan!  Og það hefur sko heilmargt gerst síðan þá.

Eurovision... það eru náttúrulega allir búnir að gleyma því strax daginn eftir... nema ég LoL  Ég er ennþá að hlusta á lögin og finnst þau flest bara nokkuð góð.  Öll Norðurlöndin höfða til mín nema Finnland. Norska lagið er æði og danska líka. Svo finnst mér lögin frá Albaníu, Portúgal og Serbíu rosaflott. Svo þarf ég alltaf líka að vera aðeins öðruvísi því mér líkaði lögin frá Belgíu og Makedóníu :)  Vinningslagið finnst mér vera óttalegt prump og skil ekki alveg þessa stigagjöf með Rússland og Grikkland efst lengst framanaf... ég var bara alveg hissa.

Eitt verð ég að segja ykkur þótt það hafi gerst 9. maí.  Við fórum á Þingvelli að veiða þá um kvöldið, ætluðum bara þrjú að fara, ég, Ágúst og Margrét en á síðustu stundu ákvað Margrét að taka Þórunni vinkonu sína með, sem var auðvitað alveg sjálfsagt. Við börðum vatnið heillengi og ekkert gerðist. Stelpurnar voru alveg að verða leiðar enda ekki högg í rúma tvo tíma.  Svo kastar Þórunn út og það fór eitthvað stutt og hún ekki alveg sátt við það svo ég sagði henni að draga inn og ég skyldi kenna henni gott trix við að kasta langt.  Ég lagði frá mér stöngina mína, sem var frekar nálægt bæði hennar og Margrétar og labbaði til hennar... rétt í því beit á hjá henni heldur betur og við hjálpuðum henni að berjast við skrímslið því það spólaði út af hjólinu hennar og hún varð alveg þreytt í höndunum og hrópaði alltaf:  "Vá, hvað hann er sterkur, ég er svo þreytt í höndunum!!!" :)  Fiskinum tókst að synda út um allt í kringum okkur og flækja saman allar þrjár línurnar, mína, 2008.05.10 01-19-12Margrétar og þessa sem hann hékk á!  En okkur tókst að landa honum eftir nokkur átök og Ágúst náði honum í háfinn... sem gaf sig við að lyfta tröllinu hehe.  Þetta var risastór urriði og þegar heim var komið náðum við í pundmæli og kvikindið var sko 9,5 pund og 80cm!!!  Ég hef aldrei veitt svona flykki eða einu sinni verið nálægt þegar svona flykki er dregið á land.   Ótrúlega gaman.  Ekki spillti svo að þetta var fyrsti fiskurinn sem Þórunn veiddi um æfina og hún fór stolt heim (kl. 02:00 um nóttina) og vakti allt húsið heima hjá sér til að sýna gripinn.  Joyful  Daginn eftir (minnir mig)  talaði hún við Margréti og tilkynnti henni að það ætti eta kvikindið um kvöldið :)  Bara gaman að því. :)

 Þulugreyið okkar hefur það ekki alveg nógu gott þessa dagana. Við fórum með hana til læknis því okkur finnst hún vera að versna í "betri" fætinum, þ.e. þeim sem hefur ekki verið skorinn upp. Læknirinn tók röntgen myndir og sagði svo að það tæki því ekki að gera aðgerð því hún er orðin mjög slæm.  Fóturinn sem var skorinn í okt-06 var líka orðin verri en hann var.  Þó höfum við aldrei farið með hana í gönguferðir þar sem hún er laus og hún fær ekki nema hámark 15 mín. göngutúra... kannski einu sinni í viku.  Öll útivera sem hún fær er í bandi á bílastæðinu og þrisvar á dag út á tún í taumi.  Núna lítur málið svo út að við erum að athuga hvort Agria líftryggingin nái yfir þetta fari svo að við þurfum að láta svæfa hana.  Læknirinn vildi ekki skrifa beint á skýrsluna að það væri nauðsynlegt að svæfa dýrið heldur að lífslíkur hennar væru mjög skertar og hún gæti lifað áfram á verkjalyfjum.  Ekki skemmtilegt það.  Leyfi ykkur að fylgjast með framhaldinu.  Er að bíða eftir svari frá VÍS.

Það hefur ekki farið framhjá neinum að maðurinn minn á mótorhjól...  Pressan um að ég fari með í túrana verður meiri með hverjum deginum sem líður.  Meðan ég á ekki almennilegan galla hef ég komist upp með það tvisvar að fara ekki með hehe.  Í gærkvöldi var Lindarferð, þ.e. þegar Lindin átti afmæli var hægt að styrkja hana með ákveðnu framlagi og fá m.a. mótorhjólaferð með Trúboðunum.  Ég komst ekki undan í þetta sinnið.  Ferðinni var heitið á Reykjanesið. Byrjað á planinu hjá Fíladelfíu og keyrt í einni bunu alla leið í Grindavík.  Þegar þangað kom var ég orðin svo dofin í rassinum að ég hefði átt að nota tækifærið og ná mér í hefil eða ostaskera og sneiða aðeins af honum... ég hefði ekki fundið fyrir því. Pinch  og rassinn hefði rýrnað...  Í Grindavík fengu allir ís í brauði áður en haldið var af stað aftur og keyrt meðfram sjónum að flekagjánni og framhjá Höfnum og til Keflavíkur. Þar heimsóttum við annan mótorhjólaklúbb og rassinn var orðinn ennþá dofnari. Ég leit í kringum mig til að athuga hvort ég myndi finna smíðaverkstæði...  en þar fengum við kaffi og rassinn jafnaði sig.  Það fór að rigna aðeins á okkur en það kom ekki að sök fyrir mig allavega, mér tókst að halda mér þurri.  Að lokum var svo brunað í bæinn og þaðan beina leið heim.  Þegar ég kom heim var mér ekkert kalt... en var frekar köld viðkomu á lærunum og sonna... enda bara í gallabuxum :)  Ég henti mér í LazyBoy og hvíldi lúin bein (og rass!) og viti menn... mér varð allt í einu svo ískalt að ég ætlaði hreinlega aldrei að ná í mig hita aftur... úff... skalf alveg þangað til ég fór upp í rúm og undir sæng. :)   Í dag er ég að drepast í rófubeininu...  tíhíhí...  Kannski þyrfti ég að fá mér mótorhjólagalla...hmm..

2008.05.12 15-21-472008.05.12 12-51-36Annað sem ég verð að monta mig af... Ágúst fékk lánaðan GEGGJAÐAN bíl um daginn.  Benz xxx (eitthvað-voða-flottar-og-merkilegar-tölur-sem-ég-kann-ekki-að-segja-frá).  Sportbíll sem er 630 hestöfl og togar 830 "Njúton" metra (haha framburður) hardtop blæjubíll, tveggja sæta.  Flottari en nokkur orð fá lýst svo ég sýni ykkur bara mynd af honum. :)  Ég upplifði mig sem aðalgelluna... ekki bara í bænum heldur í heiminum sko hahaha...

Núna er allt að róast hjá okkur.  Við erum búin með öll námskeið og samfélagshóparnir að fara í frí og svona þannig að það verður líklegast meiri tími til að gera eitthvað svona sumar-ferðalaga-veiði eitthvað ;)  Margrét fékk vinnu í Múrbúðinni og fílar sig bara vel innan um kallana og múrvörurnar hehe og Haukur er farinn að vinna í Húsasmiðjunni með Hlyn, sem var svo almennilegur að mæla með honum í vinnu og hann er bara að standa sig einstaklega vel hef ég heyrt :)  Svo núna er "byggingavöruverslanasamkeppni" inni á teppi hjá mér!!! ;)  Nei, nei smágrín bara, allt með friði og spekt.

Jæja góða fólk.... þið sem ennþá nennið að kíkja :) Mér þykir endalaust vænt um ykkur

Hrafnhildur í sumarskapi :)


Eurovision NÖRD ... Ljósmyndadellukjáni

Váá... ég hef aldrei fengið svona mörg comment! Takk takk allir! Ég er nokkrum sinnum búin að setjast niður og byrja að blogga en tekst aldrei að pikka nema nokkrar línur. Ég hef þó vistað það og ætla bara að demba því út núna þó það sé "old news" :)

#1
Ég er algjör Eurovision nörd.  Alltaf þegar kemur í apríl á hverju ári þá fer ég að spila endalaust Eurovision lög (ég á þau öll frá upphafi) Whistling   Ég er samt ekki svona statistics nörd því ég man ekkert voða mikið um hver syngur hvað og hvenær hehe.  Samt svona aðeins. Uppáhalds eurovision lagið mitt EVER er t.d. Króatía 1998 sem er Neka mi ne Svane með Danijelu.  Það er BARA flott lag. http://youtube.com/watch?v=AFNSqv_-eUA   Svo voru keppnirnar árin 2001, 2002 og 2003 mjög góðar. Fullt af góðum lögum þar.  Við Hafrún eigum þennan nördaskap sameiginlegan nema hún er miklu duglegri en ég að muna ártöl ofl. Ég er alveg vonlaus í því.  Margrét mín virðist líka hafa þetta í genunum því hún er alltaf að hlusta á þessi lög. Hún hefur samt engan áhuga fyrir að vita neitt um keppnirnar, finnst þetta bara skemmtileg lög :)

#2
Viðar fór á árshátíð Öryggismiðstöðvarinnar um daginn sem haldin var á Stykkishólmi. Hann og vinir hans í vinnunni voru með skemmtiatriði... og það var einmitt Eurovision lag sem þeir tóku... og unnu! haha.. það var frábært.  Þeir tóku lagið Eurovísa með Botnleðju nema þeir breyttu aðeins textanum.  Það var afhentur bikar og allt... :)

#3
Ég er líka annars konar nörd... ég er alveg að verða fíkill í að taka ljósmyndir. Verst er þó hvað það er lítill tími... eða kannski ég ekki nógu klár að skipuleggja hann... hmm..   Allavega er ég núna á ljósmyndanámskeiði... sem því miður lendir á sömu kvöldum og ég á að vera á hjóna-alfa, en ég vinn bara heimavinnu þar :)   Ég var svo heppin að sú sem sér að mestu leyti um heimasíðu Mosfellsbæjar vildi fara að læra eitthvað um ljósmyndun og ljósmyndameðferð og ég er í heimasíðunefnd... og hún vildi endilega að við færum saman... og bærinn borgar :)

... núna er ég nýkomin heim úr vinnunni og ætla að hvíla mig aðeins, ég er líklega með eitthvað ojoj í kinnholunum svo ég er með dúndrandi höfuðverk og er að drepast úr vöðvabólgu hægra megin. Vöðvabólgan segir nú örugglega svona mikið til sín í dag því við hjónin vorum að veiða ALLAN sunnudaginn. Við byrjuðum á því að fara á Þingvelli... í hífandi roki og við vorum einu hálfvitarnir sem létum okkur detta í hug að reyna að veiða í þessu veðri.  Þegar við vorum farin að fjúka sjálf ákváðum við að fara í bæinn en þegar þangað kom vorum við enn í veiðistuði og renndum að Reynisvatni þar sem frúin á bænum setti í 3 fiska en bóndinn engan... ég leyfði honum þó að draga þann síðasta... tíhíhí... Tounge

Jæja... dóttlan mín er með fiðrildi í maganum yfir einhverjum "gaur" og nær ekki að einbeita sér að prófalestri... verð að gera eitthvað í þessu... Wink

Vona að ég verði duglegri að blogga á næstunni. 

Tschüss!  Hrafnhildur


Merkisdagur

Í dag er merkilegur dagur hjá okkur hjónum því ekki bara á Ágúst afmæli, til hamingju með það minn kæri ;) Heart  heldur eigum við hjónin 20 ára brúðkaupsafmæli!W00t  Og ekki nóg með það heldur líka 22 ára samvistarafmæli... par

 Það er ekki alveg laust við að maður fá nettan fiðring í magann yfir þessum árafjölda. Þegar ég hugsa til baka þá finnst mér við hafa verið ótrúlega mikil börn þegar við giftum okkur (sem segir mér að ég er ekki svo gömul :) Við vorum bæði 21 árs og áttum 8 mánaða gamalt barn.par-gift

Það hefur gengið á með skini og skúrum þessi 20 ár okkar, eins og væntanlega hjá flestum :) en alltaf höfum við vitað að okkur væri ætlað að vera saman ALLTAF.  Við byrjuðum að "búa" í litlu kjallaraherbergi í Hraunbænum hjá Fríðu og Gústa, ömmu og afa Ágústar. Þetta voru 11 m² og þar höfðum við fataskáp, ísskáp, eldavél, "eldhússkáp", rúm, sjónvarp og græjur. Við bjuggum þar í heilt ár og fluttum ekki fyrr en í júlí '87 eða mánuði áður en ég átti Viðar. Við áttum margar góðar og skemmtilegar stundir þar, fengum gesti og héldum afmæli o.m.fl.  ég skil það eiginlega ekki í dag... Við notuðum pínulítið klósett sem var á sameigninni frammi á gangi og þar vaskaði ég upp í vaski sem tók í mesta lagi 2 lítra af vatni hehe. Baðkar og sturtu nýttum við hjá Fríðu og Gústa. Hér fyrir neðan eru myndir úr herberginu... hrikalega fyndið :) Þið fyrirgefið mér bara fólk sem er á myndunum tíhíhí...

hraunbÚr Hraunbænum fórum við í litla 2ja herbergja íbúð á Ásvallagötunni vestur í bæ og vorum þar fram í feb. '88.  Mér leiddist soldið þar, langt í alla og ég labbaði alltaf alein um miðbæinn með vagninn minn. Okkur bauðst svo íbúð til leigu í Grundartanga í Mosó og fluttum þangað mjög glöð og sæl. Þar gátum við bara verið í eitt ár því sá sem átti íbúðina flutti sjálfur inn. En við eigum góða að og fengum að vera hjá bæði foreldrum mínum og tengdó, u.þ.b. tvo mánuði á hvorum stað þar til við fengum Krókabyggðina afhenta splunkunýja í maí '89.

Svona vorum við þá:

2008.03.26 19-02-57_0005  hahaha  bara fyndið Grin

 

 

 

 

 

 

En svona er settið núna:

par-hjolSegið svo að maður verði ekki bara meira töff með aldrinum  Whistling

 

 

 

 

 

Elsk'ykkur...   Hrafnhildur síunga :)


Flickrrrrr........

Ég er búin að finna mér nýtt áhugamál.  Það er að eyða ÖLLUM aukamínútum heima hjá mér (af því að þær eru nefnilega svo margar) í að fara yfir myndirnar í tölvunni minni og finna flottar myndir til að setja inn á flickr síðuna mína  Það má sko alveg gleyma sér við það :)  Og ekki skemmir að hlusta á flotta tónlist með.  Nú er ég nefnilega alveg að "fíla" Ernie Haase & Signature Sound.  Það er ekki einu sinni hægt að sitja kyrr við tölvuna :)

Við vorum með samfélagshóp hér hjá okkur í kvöld. Mjög huggulegt. Ég fékk hana Myllu vinkonu mína til að baka fyrir mig og hún bakaði þessa dýrindis spelt köku og vínarbrauð með sultu.  En það smakkaði enginn á þeim.  Ég nefnilega nennti að skera niður fullt af ávöxtum í dag, sem ég stráði svo vanillusykri yfir og bar síðan fram með rjóma og Síríus konsum súkkulaðispæni og það gerði þessa líka stormandi lukkuna :)  Jú, ég nennti líka að setja Doritos í skál og gera svona salsa og rjómaost í eldföstu móti... mmmm... enda var þetta tvennt það eina sem var borðað... ég skil það sko alveg. :)

Á morgun kemur nýr dagur og þá ætla ég að vera eldspræk og þið vonandi líka, njótið hans því hann er Guðs gjöf til ykkar.

Góða nótt
Hrafnhildur


Bækur

Mér hefur alltaf fundist gaman að lesa bækur.  Ég las ógrynni af Rauðu ástarsögunum þegar ég var unglingur, ég meira að segja stalst til að lesa þær þegar ég átti að vera að lesa undir samræmdu prófin á sínum tíma... uss uss... Ég las ekki bara ástarsögur heldur las ég bara það sem mér datt í hug. Ég las allar "Fimm" bækurnar, Ævintýrabækurnar, Dularfullu bækurnar, Beverly Gray o.m.fl. Svo einhvern vegin þegar ég var að ala börnin mín upp, þ.e. þegar þau voru lítil og fyrirferðamikil þá bara las ég aldrei neitt. Kannski var það líka vegna þess að Krókabyggðin var svo lítil og þröng að ég hafði aldrei pláss fyrir bókahillur. Mér fannst ég eiga FULLT af bókum sem komust hvergi fyrir. Svo fluttum við hingað í Brekkutangann og ég hlakkaði svooo til að setja upp margar bókahillur og koma öllum bókunum mínum fyrir í mörgum bókahillum.  Ég átti eina og fékk síðan tvær í viðbót eftir að amma og afi Ágústar dóu í fyrra. En...  svo í mikilli tilhlökkun sótti ég ALLA bókakassana mína og vitið þið hvað?...  Ég náði ekki einu sinni að fylla eina bókahillu Pouty  Svo að ég gjörsamlega missti mig í að kaupa gamlar bækur á flóamörkuðum og svoleiðis.  Svo var ég svo einstaklega heppin að kona sem var að vinna með mér á leikskólanum var að flytja, og hún átti sko heilt risastórt bókaherbergi í húsinu sínu og var í vandræðum með allar þessar bækur.  Hún gaf mér hvorki meira né minna en u.þ.b. 300 bækur! Nú á ég 4 bókahillur fullar af bókum. Smile Ég er líka farin að vera miklu duglegri að lesa bækur, annað hvort hef ég meiri tíma eða ég nota tímann þegar ég ætti að vera að gera eitthvað annað til þess að lesa :)  Allavega er ég búin að lesa nokkrar bækur núna í vetur og var að klára bókina "Einhvers konar ég" sem Þráinn Bertelsson skrifar um uppvaxtarárin sín. Og þetta er alveg meiriháttar bók.

Í gær skrapp ég í bæinn með Lilju og þegar við vorum að tala um bækur datt okkur í hug að kíkja í Kolaportið. Ég gæti sko alveg mætt þar kl 11 og verið alveg til kl. 17 BARA að skoða bækur.  Ég gæti alveg misst mig þar.  Og það besta við það að á flestum stöðum er hægt að fá bækurnar á 100-200 kall!  Geðveikt.  Það fyndnasta við þetta að notaðar gamlar bækur heilla mig miklu meira en nýjar bækur.  Er einhver sjálfboðaliði sem vill koma með mér þangað við tækifæri? ;)

Ég er líka áskrifandi af Ísfólksbókunum og mér finnst rosalega gaman að lesa þær.

Við Ágúst erum í tveimur samfélagshópum núna. Annar hittist annan hvern fimmtudag en hinn einu sinni í mánuði.  Í þeim erum við að lesa saman bók sem heitir "Tilgangsríkt líf" og er mjög góð. Hún hjálpar manni svona að finna hlutverk sitt í þessum harða heimi. Ég mæli með henni líka :)

Jæja krúttlur... þar til næst...

Hrafnhildur


Enn einu sinni...

...tannlæknir.  Ég hef aldrei verið með kvíða yfir tannlæknaheimsóknum en í nótt og í morgun leið mér bara hálfilla, ónot í maganum og svona, bara af því að ég var að fara til tannlæknis!  Guðrún, yfirmaður minn, sagði að það væri nú bara af því að þessi tannlæknir væri búinn að fara svo illa með mig.  Það er soldið til í því... eða ég bara óheppin. Í morgun fór ég sem sagt til tannlæknis því í haust þegar hann reif úr mér tönn og var að dunda sér við að plokka einhvern tannstein meðan hann beið eftir að deyfingin virkaði þá braut hann aðeins upp úr annarri tönn og sagði að við skyldum bara laga það næst.  Eftirköstin eftir þennan tannúrdrátt urðu svo vond að ég fór ekkert "næst"  :)  En þetta var farið að angra mig og ég var komin með einhvern óþægilegan verk öðru hvoru svo ég vaaaaaaaaarð að fara til hans.  Hann klappaði mér á kollinn og hló að mér þegar ég herpti saman varirnar og hleypti honum ekki upp í munninn á mér, svo deyfði hann mig vel og hann lagaði tönnina án nokkurra vandkvæða.  Ég held bara að þetta sé í fyrsta sinn í nokkur ár sem mér líður bara ágætlega sama kvöld og ég fór til tannlæknis!  Undur og stórmerki ;)

Að öðru leyti er bara allt fínt að frétta af Brekkutangagenginu.

Ég er að lesa bók eftir Þráinn Bertelsson sem heitir "Einhvers konar ég" Þetta eru stuttar sögur úr endurminningabankanum hans og ég ráðlegg öllum að lesa þessa bók. Frábær lesning.  Og nú ætla ég einmitt að hætta í tölvunni og halda áfram að lesa.

Elskið friðinn...     Hrafnhildur


Hahaha...

Þarna gabbaði ég ykkur, ég er viss um að þið hélduð að ég væri sprungin Grin 

Saltkjötið og baunasúpan hjá mömmu var himneskt! Og ég borðaði svooo mikið að það munaði engu að ég springi, grínlaust. Wink Það var líka rosalega gaman að hittast svona öll og borða saman og spjalla á eftir og ekki spillir þegar Maggi kemur með gítarinn og spilar fyrir okkur.  Mér finnst frábært hjá þér Hafrún að ætla að endurvekja súpukvöldin okkar, ég hlakka geggjað til!

Þetta er búið að vera fín helgi...  Í gær fór Ágúst að vinna og ég vann í heimasíðu á meðan. Við skúbbuðum svo hreingerningu af þegar hann kom heim og fengum okkur grísaskanka í matinn, ég hélt ég væri að elda ágætismat... en, almáttugur... ég eldaði þetta í tvo tíma en þetta var eins og gúmmí!... ekki einu sinni svo gott að það væri eins og tyggjó, maður bara komst ekki í gegnum þetta!!!  úfff... kaupi aldrei svona aftur hehe. En svo áttum við kósí kvöld alein heima því allir krakkarnir fóru eitthvað á flakk. ´

Deginum í dag er ég búin að eyða í að sortera geisladiska... það er víst til nokkur hundruð af þeim hér ef ekki þúsund... W00t Náði ekki einu sinn að klára áður en við fórum á samkomu. Ljúf samkoma, lofgjörð í klukkutíma og engar auglýsingar og engin ræða :)  Frábært.  Við fórum svo heim til Lilju og Óskars eftir samkomuna til að taka myndir af hvolpunum þeirra sem eignast ný heimili í komandi viku.  Þau buðu okkur í mat og svo fórum við bara heim. Voða smúkt ;)

 Jæja... ég bið að heilsa að sinni...

Hrafnhildur... sem er enn í heilu lagi :)


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband